Orð sem bara vefhönnuðir nota

Björgvin Pétur

Hönnunarheimurinn á mörg orð sem lýsa flóknum og sérstökum hugtökum. Vefhönnuðir eru ekki undanskildir þessari tilhneigingu og því ákváðum við að taka saman sum af okkar mikilvægustu orðum og útskýra merkingu þeirra.

A drawing of a wireframe


Wireframe – Vírlíkan

Vírlíkan er vinnsluskjal sem er hægt að lýsa sem beinagrind af vefsíðu. Vírlíkan sýnir þá hvar myndir, texti og takkar munu birtast, oft með línum, litum og útskýringartexta. Hugmyndin er að sýna uppbyggingu síðunnar og efnistök áður en ráðist er í hönnun á mynd og textaefni.User persona – Notendapersóna

Notendapersónur eru skapaðar út frá rannsóknum á markhópi vefsíðunnar og eru „talsmenn“ ákveðinna markhópa. Tilgangurinn er að skilgreina notendur vefsíðunnar af ákveðinni nákvæmni og miða notendaflæði og upplifun út frá þeim. Með notendapersónum setjum við okkur betur í spor notandans og tryggjum að við sköpum upplifun sem hentar hans þörfum.User flow – Notendaflæði

Notendaflæði er eitt af fyrstu skrefum vefhönnunar þar sem hönnuður teiknar upp sögu notandans frá því að hann kemur inn á vefsíðuna og þangað til hann klárar markmið sitt. Í notendaflæðið teiknum við bæði upplýsingar sem notandinn sér og ákvarðanir sem notandinn tekur út frá þeim. 

A drawing of a decision tree


Kerning – Stafþjöppun

Stafþjöppun lýsir bilinu á milli stafa í hönnuðu efni. Bilið á milli stafanna er gríðarlega mikilvægt fyrir læsileika texta og samhljóm.


White space – autt svæði

Autt svæði er ekki ónýtt svæði. Það er hluti hönnunar sem er jafn mikilvægur og grafík en hlutverk auða svæðisins er að gefa grafíkinni andrými og beina auganu að því sem er mikilvægt. 


Copy – Texti

Copy er almennt notað yfir texta sem er notaður í hönnun, hvort sem er í vefhönnun eða auglýsingum. Það eru til margar undirtegundir texta sem hver hefur sínu hlutverki að gegna.


Microcopy – Smátexti

Smátexti er stuttur texti í viðmóti sem leiðbeinir notandanum og segir honum hvað hann skuli gera. Dæmi um slíkan texta er „áfram“ eða „ganga frá pöntun“ í vefverslun, smákökutilkynningar eða lýsingar á vöruflokkum.

Breadcrumb – Brauðmolaslóð

Í vefhönnun er brauðmolaslóð hagnýt leið til að sýna notandanum hvar hann er og hvernig hann komst þangað. Í sinni einföldustu mynd er þetta myndræn lýsing á því hvar núverandi undirsíða á heima og í hvaða flokki hún er auk þess sem hún einfaldar notandanum að komast um síðuna.

An example of a website with breadcrumbs, copy and microcopy.

Visual hierarchy – Sjónrænt skynveldi


Sjónrænt skynveldi lýsir skynjuðu stigveldi eininga vefsíðu. Með öðrum orðum, hvaða hlutum notandinn tekur eftir, hvað hann álítur vera mikilvægast og hvernig hann leitar að upplýsingum. Hönnuðir nota sjónræn einkenni til að túlka mikilvægi og leiðbeinir þannig  notandanum orðlaust í réttan farveg. Án skýrs skynveldis verður notandinn villturi og leitar ákaft að helstu upplýsingum.

Helstu verkfæri til að skapa skynveldi er stærð, litir, andstæður, jöfnun, endurtekning, nálægð, autt svæði, áferð og stíll.


Hover – Sveima

Að sveima lýsir því þegar músarbendill fer yfir eitthvað. Í vefhönnun á sér oftast eitthvað stað þegar sveimað er yfir takka eða hluti sem hægt er að smella á til að sýna notandanum hvaða aðgerðir eru í boði.

Drawing of a Computer screen and a mobile screen.

Responsive design – Skalanleg vefhönnun

Skalanleg vefhönnun bregst við stærð skjásins sem vefsíðan birtist á. Skalanleikinn tryggir að vefsíðan sé jafn skýr á farsímaskjá og tölvuskjá. 


UX – Notendaupplifun

Allar aðgerðir, hvort sem það er að opna dyr eða kveikja á tölvu, eru notendaupplifun, s.s. upplifun þín sem notandi hlutarins. Í vefhönnun er áhersla á að notendaupplifun sé snurðulaus og einföld og á það að hámarka upplifun notandans í nafni þess að hvetja hann til viðskipta. 


UI – Viðmót

Viðmót er það sem margir notendur túlka sem hina eiginlegu vefsíðu, þ.e. samblanda af texta, tökkum, myndrænu efni og skilaboðum. Viðmót er hannað til að gera notendanum kleift að ná markmiði sínu á vefsíðunni.


Eru einhver orð sem þú skilur ekki?

Hafa samband
Go to link
Björgvin Pétur

Viltu lesa meira?