Hamborgaravalmyndin

Björgvin Pétur

Hamborgaravalmyndin var fyrst notuð á níunda áratugnum og hefur síðan orðið að rótgrónu og þekktu merki, sem er sennilega orðið jafn þekkt og Nike merkið eða Coca-Cola leturmerkið. Hamborgaravalmyndin er yfirleitt notuð fyrir vefsíður eða öpp á smærri skjáum, en er stundum einnig notuð á stærri skjáum. Undanfarið hefur verið þó nokkur umræða um hamborgaravalmyndina, fólk skiptist í fylkingar, með og á móti. Ætti að nota hamborgaravalmyndina áfram eða ætti að forðast hana eftir fremsta megni?

Hamborgari vs flipastika

Hamborgaravalmyndin, í eðli sínu, felur undirsíður og aðra valmöguleika á bak við „músarsmell“. Vegna þessa getur notendaþátttaka (með tilliti til flettinga og fjölda flettinga á hverja heimsókn) minnkað. Mikilvægar upplýsingar liggja á bak við 25px x 25px hnapp í hægra eða vinstra horninu efst á skjánum, en það eru einmitt tveir erfiðustu staðirnir til að smella á, á símaskjá. Sem dæmi þá hætti Spotify að nota hamborgaravalmyndina og skipti henni út fyrir flipastiku neðst á skjánum (e. bottom tab bar). Við þessa breytingu jukust smellir í heildina um 9% og smellir á valmyndahlekki jukust um heil 30%.

Þó að erfitt sé að færa rök fyrir því að Hamborgaravalmyndin takmarki ekki notendaþátttöku (e. user engagement) er mikilvægt að taka tillit til þess að með því að takmarka þátttöku er einnig hægt að fækka truflunum. Bersýnilegir valmyndahlekkir geta gert það að verkum að notendur smella á þá og fara þá af viðkomandi síðu áður en notandinn hefur gert þær aðgerðir sem lagt var upp með að notandinn ætti gera. Hamborgaravalmyndin er hins vegar kunnuglegt viðmót sem leyfir notendum að fara á aðrar síður án þess að draga athygli frá efninu sem er á viðkomandi síðu. Fjölmargar rannsóknir, þar á meðal þessi, hafa sýnt fram á að einföldun á valmyndum og valmöguleikum kann að auka verulega árangur af tilgangi vefs, eða um allt að 300% (e. higher conversion rate).

Niðurstaðan er þessi

Niðurstaða okkar er að best er að greina eigin markmið og finna út hvað hentar best til að ná þeim. Ef þið hafið eitt meginmarkmið fyrir notendur er líklega ekki ráðlegt að trufla notandann með aukaatriðum í formi flókinnar valmyndar. Hamborgaravalmyndin getur beint notandanum að hinu eina tiltekna markmiði eða verkefni, eins og að skrá tölvupóstfang á póstlista félagsins eða selja ákveðna vöru. Ef þú rekur hins vegar fyrirtæki með mikið af efni og fjölbreyttum notendum og markmiðum, gæti verið betra uppá notendaupplifun að hafa allar mikilvægustu síðurnar bersýnilegar á valstiku (e. nav bar) á síðunni. Hér hjá Jökulá, látum við gögnin ráða.

Gerum eitthvað frábært saman!

Hafa samband
Go to link
Björgvin Pétur

Viltu lesa meira?