10 frábærir staðir fyrir hönnuði til að sækja innblástur.

Björgvin Pétur

Allir hönnuðir þurfa að sækja sér innblástur eða fást við verkefni með takmarkaðan efnivið, fjármagn eða tíma. Hér er listi af frábærum vefsíðum, forritum og samfélögum þar sem þú getur sótt þér innblástur og breytt hindrunum í tækifæri.

1. Sketch

Sketch er forrit fyrir stafræna hönnun sem við notum oft fyrir vefhönnun og viðmótshönnun. Forritið var gert með stafræna hönnun að leiðarljósi og virkar mjög vel fyrir gerð veflíkana (e. mockups). Sketch App bankinn er samantekt af yfir 3700 úrræðum svo sem hönnunargrindur (e. wireframes), viðmótssett (e. UI kits), merkjasett (e. icon sets), líkön (e. mockups) og fleira.

2. Pixel Surplus

Pixel Surplus býður bæði upp á margs konar úrræði þér að kostnaðarlausu og önnur gegn gjaldi. Meðal þess sem hægt er að fá endurgjaldslaust eru leturgerðarpakkar, myndefni, áferðir (e. textures), sniðmát og líkön (e. mockups) sem spara þér tíma og veita þér innblástur í hönnun.

3. Codecademy

Fyrir þá sem vilja eða þurfa að læra aðeins meira um tæknileg atriði hönnunar er tilvalið að nýta sér Codecademy til þess að læra grunnatriðin við vefforritun.

4. Coolors

Með Coolors getur þú skapað litaspjöld með þínum eigin litasamsetningum eða valið úr þúsundum tilbúinna litasamsetninga þegar þú átt í erfiðleikum með að velja liti.

5. Dribbble

Dribble er netsamfélag hönnuða og skapara. Það er tilvalinn staður til að skoða verk sjálfstæðra hönnuða, hönnunarteyma og fyrirtækja um allan heim. Þar er mikið úrval af hönnunarverkefnum og meðal annars hægt að skoða hönnun á smáforritum, hreyfimyndum, myndskreytingum, prentverki og fleira. Okkar hönnuðir eru með persónulega aðganga sem hægt er að skoða hér: Björgvin: https://dribbble.com/bjorgvinpetur Friðrik: https://dribbble.com/frikkiari Birgitta: https://dribbble.com/birgittarun

6. Pexels

Aðkeyptar myndir úr myndasettum eru oft alveg ferlegar. Pexels er hins vegar óhöfundaréttarvarið safn af ljósmyndum og myndskeiðum sem skarar fram úr. Svo er ekki verra að safnið er frítt til afnota.

7. Awwwards

Awwwards veitir verðlaun og fjallar um bestu vefsíður heimsins og er fullkominn staður til að finna innblástur fyrir vefsíðugerð, og er jafnframt vettvangur þar sem hönnuðir geta tilnefnt og kosið um besta framtakið í vefsíðugerð. Skemmtilegt er að segja frá því að jokula.is fékk viðurkenningu á síðunni.

8. Graphic burger

Graphic Burger er, rétt eins og Pixel Surplus, safn af ókeypis áferðum (e. textures), teikningum og líkönum (e. mockups). Þeir hafa stórt safn af líkönum og verkfæri til að prófa þínar hannanir á margvíslegum tækjum og vörum.

9. UX Magazine

Viðmótshönnun er í stöðugri þróun. UX Magazine er kjörin uppspretta fyrir hönnuði sem vilja bæta við þekkingu sína á notendaupplifun og vera í takt við tímann og nýjustu strauma.

10. Flaticon

Flaticon er gagnagrunnur af bæði ókeypis og keyptum merkjasettum. Þau koma í margvíslegum stílum og skrásniðum og bjóða upp á nánast hvaða merki sem þig gæti mögulega vantað.

Vantar þig hönnun?

Hafa samband
Go to link
Björgvin Pétur

Viltu lesa meira?